Inspired by Iceland
Ath:  Attn:  Achtung: 
Athugið nánari upplýsingar um Akranes siglingar vinsamlegast sjá undir Akranes-Rvk siglingar
Ath:  Attn:  Achtung: 
Use module title to set up the message.
Ath:  Attn:  Achtung: 
Use module title to set up the message.

Vesturland

Fyrir ferðalanga

Veðursælt og vinsamlegt

Fjölbreytt náttúra einkennir Vesturland þar sem jökla, birkiskóga,  mosaþakin hraun,  gjöfular veiðiár og fallega strandlengju er víða að finna.

Tækifæri til útivistar eru fjölmörg á Vesturlandi. Skemmtilegar gönguleiðir eru hvarvetna og leiða þig t.d. að hæsta fossi Íslands í Hvalfirði, um slóðir Bárðar Snæfellsáss undir Snæfellsjökli  eða upp á gígbarm Eldborgar.  Einnig eru sundlaugarnar á Vesturlandi fjölbreyttari og heilsusamlegri en víða gerist svo sem hin rómaða Lýsuhólslaug.   Og ekki er nú verra að njóta lífsins á baðströndinni á Langasandi á Akranesi á heitum degi eða skella sér í siglingu um Breiðafjörð.  Á Vesturlandi má finna marga skemmtilega golfvelli þar sem kylfingar geta freistað þess að ná holu í höggi í fögru umhverfi.  Einnig er skemmtilegt að heimsækja bóndabæi sem bjóða gestum heim eða líta við á einhverri hestaleigunni og  fá sér reiðtúr um skóglendi Borgarfjarðar, á Löngufjörum á Snæfellsnesi eða á slóðum landnámsmanna í Dölunum.  Hinir ævintýragjörnu geta skellt sér í ferð á Langjökul eða Snæfellsjökul en boðið er upp á reglulegar ferðir á jöklana. Fyrir þá sem kunna betur við sig neðanjarðar er spennandi að fara í hellaferð í Víðgelmi í Borgarfirði eða Vatnshelli á Snæfellsnesi, en þar er hægt að skoða sig um með hellafróðum leiðsögumönnum.

Vesturland er sögusvið margra Íslendingasagna og er því ekki að ósekju nefnt Sögulandið Vesturland.  Þekktir Vestlendingar í sögunni eru t.d. Auður djúpúðga, Eiríkur rauði, Egill Skallagrímsson og Snorri Sturluson.  Sagnaarfinum er gert hátt undir höfði í landshlutanum og í m.a. Landnámssetrinu í Borgarnesi og Eiríksstöðum í Dölum er hægt að fræðast um söguna á lifandi hátt. Einnig er hægt að kynnast annars konar söguhetjum víða á Vesturlandi, s.s. Þúfnabananum á Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri,  Hagamúsinni á Safnasvæðinu á Akranesi, hákörlum í Bjarnarhöfn og  jöklum landsins í Vatnasafninu í Stykkishólmi. 

Á nokkrum áfangastöðum er að finna þau Sögu og Jökul, en  Jökull er álfastrákur sem stúlkan Saga kynnist á ferðalagi sínu um Vesturland. Þau lenda í ýmsum ævintýrum saman og krakkar sem eiga leið á slóðum þeirra geta tekið þátt. Þau fá veglega möppu um Sögu og Jökul þar sem þau safna sögum í á hverjum stað, og fara í spennandi ratleiki með aðstoð snjallsíma eða spjaldtölvu. Kíkið á heimasvæði Sögu og Jökuls á www.vesturland.is til að kynna ykkur þessar skemmtilegu persónur betur og hvar þær er að finna.

Á Vesturlandi ætti öll fjölskyldan að finna sér eitthvað við hæfi, allan ársins hring. Hvort sem leitað er að afslöppun í fögru umhverfi eða skemmtilegri dægradvöl er af nógu að taka fyrir alla aldurshópa. Heimsækið vefsíðuna www.vesturland.is og látið Vesturland koma ykkur skemmtilega á óvart!